Innlent

Brautskráning frá Háskóla Íslands fer fram á morgun

Brautskráning frá Háskóla Íslands fer fram laugardaginn 16. júní kl. 14. í Laugardalshöll. 1056 kandidatar munu taka við skírteinum úr hendi Kristínar Ingólfsdóttur rektors. 395 útskrifast með meistaragráðu eða diplómanám á meistarastigi og 695 með BS eða BA gráðu. Níu kandidatar útskrifast með fleiri en eina prófgráðu.

Í fyrsta sinn verða 35 kandidatar brautskráðir úr meistaranámi í verkefnisstjórnun "Master of project management" frá verkfræðideild. Þá útskrifar lagadeild í fyrsta skipti meistaranema með sérstakar áherslur í sínu námi.

Flestir útskrifast frá félagsvísindadeild eða 187 talsins. 130 útskrifast frá hugvísindadeild, 18 frá guðfræðideild , 51 frá læknadeild, 51 frá lagadeild, 141 frá viðskipta- og hagfræðideild, 33 frá lyfjafræðideild, 7 frá tannlæknadeild, 135 frá verkfræðideild, 104 frá raunvísindadeild og 97 frá hjúkrunarfræðideild.

Mörg lokaverkefni grunn- og meistaranema eru unnin í nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Önnur varpa nýju ljósi á ýmis málefni sem eru efst á baugi í þjóðfélaginu. Má þar nefna að málefni fólks af erlendu bergi sem búsett er hérlendis er að finna í verkefnum kandidata frá félagsvísindadeild, raunvísindadeild og viðskipta- og hagfræðideild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×