Promens hf., sem er í eigu Atorku Group, hefur ákveðið nýtt skipurit fyrir samstæðuna sem tekur gildi í næsta mánuði. Markmiðið með breytingunni er að gera félagið skilvirkara og betur í stakk búið að stækka enn frekar á alþjóðavettvangi.
Stærsta breytingin felst í því að Polimoon Group, sem Promens keypti í desember í fyrra og hefur verið rekin sem sjálfstæð eining, verður rekið sem hluti af samstæðu Promens. Arne Vraalsen, forstjóri Polimoon mun í kjölfarið láta af störfum í lok þessa mánaðar. Hann mun þó verða áfram ráðgjafi hjá félaginu til loka árs. Aðrar breytingar hafa sömuleiðis verið gerðar á starfsmannahaldi Promens.
Í nýju skipulagi eru megin afkomusvið Promens þrjú: Umbúðir (Packaging), hverfisteypa (Rotational molding) og íhlutir (Components). Verður áhersla aukin á innkaup, framleiðni og gæðamál og munu þau heyra undir sérstakt svið.
Aðalskrifstofa Promens mun verða áfram á Íslandi en stoðdeild með fjármálastjórnun, upplýsingatækni, innkaupum, framleiðni og gæðastýringu verður komið á fót í Osló í Noregi, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Nánar má lesa um skipulagsbreytingarnar á vef Kauphallarinnar