Innlent

Rekstur Akureyrarbæjar á flugvellinum verður skoðaður

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Samgönguráðherra segir að flugbrautin á Akureyrarflugvelli verði lengd við fyrsta tækifæri og skoðað verði hvort Akureyrarbær taki yfir rekstur flugvallarins óski bærinn eftir því. Kostnaður Flugstoða við reksturinn er áætlaður um tvö hundruð milljónir króna á þessu ári.

Í gær kom fram í fréttum að Akureyrarbær hefði áhuga á að taka yfir rekstur Akureyrarflugvallar. Ein forsendan er lenging flugbrautarinnar. Þannig geti bærinn markaðssett flugvöllinn betur og meðal annars laðað að lággjaldaflugfélög.

Kristján Möller samgönguráðherra sagði í samtali við fréttastofu í dag að flugbrautin verði lengd svo fljótt sem auðið er.

Flugstoðir sjá um rekstur flugvallarins, eins og annarra áætlunarvalla á landinu fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Kostnaðaráætlun Flugstoða við Akureyrarflugvöll á þessu ári er 196 milljónir.

Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs Akureyrar segir enn einungis um hugmynd að ræða, en í meirihlutasáttmála sé þetta eitt af þeim málum sem áhersla sé lögð á. Akureyrarbær færi fram á fjármagn frá ríkinu til rekstursins, eins og Flugstoðir fá í dag.

Ef af þessu verður er hægt að auka þjónustu og markaðssetja bæði völlinn og Akureyrarbæ betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×