Körfubolti

Chauncey Billups á markaðnum

NordicPhotos/GettyImages

Leikstjórnandinn Chauncey Billups hjá Detroit Pistons kaus í dag að afsala sér síðasta árinu af samningi sínum við Detroit Pistons í NBA deildinni og verður því með lausa samninga um mánaðarmótin. Tvö lið eru talin hafa mikinn áhuga á að fá Billups í sínar raðir en Detroit er í bestu aðstöðunni til að bjóða honum góðan samning.

Billups átti inni 6,8 milljónir dollara af samningi sínum fyrir síðasta árið, en mun nú setjast að samningaborðinu með fulltrúum Detroit. "Chauncey vill fyrst og fremst skoða að halda áfram með Detroit, en ef ekki nást samningar hér verður hann ef til vill að kanna hvað önnur lið hafa að bjóða honum," sagði umboðsmaður kappans.

Joe Dumars forseti Pistons segist bjartsýnn á að halda Billups, en vitað er að Memphis og Milwaukee - tvö lið sem hafa pláss undir launaþakinu og vantar sárlega leikstjórnanda - munu án efa setja sig í samband við hann á næstu dögum.

Billups skoraði 17 stig og gaf 7 stoðsendingar að meðaltali í leik fyrir Detroit í deildarkeppninni síðasta vetur. Hann var valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 2004 þegar hann leiddi Detroit til sigurs í úrslitakeppninni gegn LA Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×