Rauði krossinn í Danmörku varar við því að hætta sé á að fólk geti drukknað á Hróaskelduhátíðinni. Þar hefur úrkoma verið mikil undanfarið og stór svæði eru þakin vatni.
Talsmenn Rauða krossins á svæðinu segja að hætta á því að fólk geti drukknað sé raunveruleg, sérstaklega ef það er mjög ölvað og getur ekki komið sér upp úr vatninu af sjálfsdáðum. 25 starfsmenn á svæðinu dældu í nótt burt 6.000 lítrum af vatni á mínútu.
Lögregla þurfti í gærkvöldi að skerast í leikinn á járnbrautarstöðinni í Roskilde þegar 300 rennblautir gestir hátíðarinnar, sem höfðu gefist upp á volkinu, reyndu að troðast inn í síðustu lestina á leið inn til Kaupmannahafnar.