Körfubolti

Nýliðarnir ryðgaðir í byrjun

Kevin Durant náði sér ekki á strik í fyrsta NBA leiknum sínum frekar en félagi hans Greg Oden
Kevin Durant náði sér ekki á strik í fyrsta NBA leiknum sínum frekar en félagi hans Greg Oden NordicPhotos/GettyImages

Nýliðarnir Greg Oden hjá Portland og Kevin Durant hjá Seattle voru boðnir velkomnir í NBA deildina á dögunum þegar þeir spiluðu sína fyrstu leiki í sumardeildinni. Oden og Durant voru valdir númer 1 og 2 í nýliðavalinu um daginn og eru miklar vonir bundnar við þá á næstu árum.

Báðir fengu þeir fljótt að kynnast því að lífið í NBA er allt annað en háskólaboltinn þegar þeir léku með liðum sínum fyrir helgina. Oden var valinn númer eitt af Portland á dögunum en hann átti óeftirminnilega frumraun þegar lið hans tapaði 74-66 fyrir Boston í Las Vegas. Oden fékk 10 villur, tapaði fjórum boltum og skoraði aðeins 6 stig. Menn mega fá 10 villur áður en þeir eru sendir af velli í sumardeildinni, en Oden setti tóninn með því að fá þrjár villur á fyrstu þremur mínútunum í leiknum.

"Ég spilaði ekki of vel. Ég spilaði ekki af nógu miklum krafti og ef menn gerra það ekki - vinna menn ekki leiki," sagði Oden og bætti við að dómgæslan væri eitthvað sem hann þyrfti klárlega að venjast í NBA deildinni.

Ekki gekk Kevin Durant hjá Seattle mikil betur í frumraun sinni með liðinu þegar það tapaði 77-66 fyrir Dallas Mavericks. Durant klikkaði á fyrstu fimm skotum sínum utan af velli en skoraði reyndar 18 stig. Megnið af þeim kom reyndar af vítalínunni því hann hitti aðeins úr 5 af 17 skotum sínum í leiknum. Hann hirti aðeins eitt frákast og gaf enga stoðsendingu. "Það var gott að komast í keppni á ný. Ég var stressaður fyrir leikinn, en ég var það fyrir alla leiki í háskóla hvort sem var. Maður getur nú ekki hitt úr öllum skotum," sagði nýliðinn.

Seattle og Portland mætast síðar í þessum mánuði í sumardeildinni og bíða margir spenntir eftir að sjá hvernig þeim Oden og Durant á eftir að ganga gegn hvor öðrum, en þeir verða líklega bornir saman það sem eftir er ferilsins eftir að Seattle og Portland gerðu upp á milli þeirra í nýliðavalinu árið 2007.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×