Körfubolti

Misstu Kol­brúnu meidda af velli en tókst samt að enda taphrinuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbrún María Ármannsdóttir meiddist í kvöld en meiðslin eru vonandi ekki alvarleg.
Kolbrún María Ármannsdóttir meiddist í kvöld en meiðslin eru vonandi ekki alvarleg. Vísir/Diego

Stjörnukonur enduðu þriggja leikja taphrinu sína í Bónus deild kvenna í körfubolta í kvöld með átta stiga sigri á Aþenu í æsispennandi leik í Garðabænum.

Stjarnan vann leikinn 79-71 og styrkti stöðu sína í sjötta sæti deildarinnar. Aþenukonur töpuðu aftur á móti fimmta leiknum í röð og sitja í næst neðsta sæti.

Kolbrún María Ármannsdóttir, ungi fyrirliði Stjörnuliðsins, meiddist í leiknum en liðsfélagarnir náðu að klára dæmið án hennar.

Katarzyna Trzeciak er komin aftur til Stjörnuliðsins eftir að hafa byrjað tímabilið með Grindavík. Hún var öflug á lokamínútunum og skoraði alls átta af þrettán stigum sínum á lokakafla leiksins.

Denia Davis- Stewart skoraði 23 stig fyrir Stjörnuna og Ana Clara Paz var með 19 stig. Kolbrún skoraði 12 stig áður en hún meiddist.

Katrina Eliza Trankale skoraði 17 stig fyrir Aþenu og Violet Morrow var með 16 stig.

Violet Morrow skoraði þrettán stig í fyrsta leikhlutanum og Aþena var tíu stigum yfir eftir hann, 30-20.

Stjörnukonur skoruðu fimmtán fyrstu stig annars leikhlutans og fyrstu stig Aþenu í leikhlutanum komu ekki fyrr en eftir rúmar átta mínútur.

Stjarnan komst fyrir vikið yfir en góður endasprettur í þessum erfiða leikhluta skilaði Aþenu eins stigs forskoti í hálfleik, 40-39.

Aþena endaði líka þriðja leikhlutann mjög vel og var 58-51 forystu fyrir lokaleikhlutann eftir að jafa skorað sjö síðustu stig þriðja leikhlutans.

Stjörnukonum tókst að snúa við leiknum í fjórða og síðasta leikhlutanum sem þær unnu með fimmtán stigum, 28-13.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×