Körfubolti

Orlando fjárfestir fyrir 12 milljarða

Rashard Lewis hefur nægar ástæður til að brosa enda margfaldur milljarðamæringur
Rashard Lewis hefur nægar ástæður til að brosa enda margfaldur milljarðamæringur NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn NBA liðsins Orlando Magic hafa ekki setið auðum höndum undanfarna daga og fjárfesta nú grimmt. Í dag skrifaði miðherjinn Dwight Howard undir nýjan samning við félagið sem sagður er vera til fimm ára og upp á um 85 milljónir dollara.

Þar áður hafði félagið gert samning við framherjann Rashard Lewis sem það fékk frá Seattle á dögunum og hann hefur undirritað samning til 6-7 ára sem færir honum hátt í 120 milljónir dollara. Þetta þýðir að félagið hefur fjárfest fyrir rúmlega 12 milljarða króna á nokkrum dögum og ljóst að pressan á þá Howard og Lewis verður mikil að standa sig á næstu árum.

Howard er aðeins 21 árs gamall og skoraði 17,6 stig að meðaltali í leik síðasta vetur, hirti 12,3 fráköst og varði 1,9 skot. Hann er enn nokkuð hrár sóknarlega, en er mikill frákastari og naut að burðum.

Rashard Lewis er nú kominn í Austurdeildina eftir að hafa leikið með Seattle allan sinn feril. Hann átti sitt besta ár til þessa á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði rúm 22 stig í leik. Lewis hefur skorað flestar þriggja stiga körfur allra leikmanna í sögu Seattle, eða tæplega 1000 slíkar. Hann er 27 ára gamall.

Orlando hefur verið eitt af duglegri liðunum á leikmannamarkaðnum í sumar en nú er útlit fyrir að framherji liðsins Darko Milicic sé á leið til Memphis Grizzlies. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×