Körfubolti

Jackson og Artest fá sjö leikja bann

Ron Artest
Ron Artest NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum samherjarnir Stephen Jackson hjá Golden State og Ron Artest hjá Sacramento í NBA deildinni, voru á dögunum dæmdir í sjö leikja bann af deildinni fyrir að komast í kast við lögin utan vallar. Leikmannasamtökin íhuga nú að áfrýja þessum dómi, en Ron Artest er mjög upptekinn við að laga ímynd sína þessa dagana.

Artest er þannig staddur í Kenía í Afríku þar sem hann er virkur þátttakandi í átakinu "Feeding One Million" (Einni milljón gefið að borða) þar sem verið er að dreifa 11 milljónum punda af hrísgrjónum til fólks sem býr við sult í landinu.

Ron Artest mun tapa um 470,000 dollurum í laun ef hann þarf að taka út bannið en Jackson um 50,000 dollurum lægri upphæð. Jackson hefur þegar gefið út að hann uni banninu, sem hann fékk meðal annars fyrir að skjóta af byssu fyrir utan nektarbúllu í Indianapolis á sínum tíma.

Umboðsmaður Artest hefur hinsvegar sagt að hann muni ekki una banni skjólstæðings síns og vill að það verði stytt eða því aflétt. Artest var handtekinn fyrir nokkrum mánuðum eftir áflog við konu sína á heimili þeirra í Sacramento.

Þeir Artest og Jackson voru samherjar hjá Indiana og fengu þyngstu refsinguna eftir slagsmálin frægu í Detroit árið 2004. Þá fékk Artest 73 leikja bann + úrslitakeppni og Jackson 30 leikja bann.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×