Viðskipti innlent

Titringur á mörkuðum

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur lækkað um eitt og hálft prósent í dag. Lækkunin er nokkuð í takt við markaði erlendis, en hlutabréf hafa lækkað víðsvegar um veröldina undanfarna daga.

Erlendir sérfræðingar telja lækkanirnar stafa af því að fjárfestar telji aðgengi að lánsfé erfiðari en áður, og vilji því selja bréf sín áður en í óefni er komið. Dow Jones vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 2,3 prósent í gær. Hlutabréfavísitölur í Evrópu og Asíu lækkuðu einnig talsvert.

Hér á landi fylgja lækkanirnar uppgjörum nokkurra stærstu fyrirtækja landsins. Uppgjör tveggja stærstu félaga í Kauphöllinni; Kaupþings og Exista voru framar væntingum. Líklegt má þó telja að fjárfestar telji að nú sé tíminn til að innleysa hagnað, eftir miklar hækkanir á markaði það sem af er ári.

Klukkan tvö var dagsvelta í Kauphöll Íslands rúmlega 7,6 milljarðar króna. Mest lækkun hafði orðið á bréfum í Atlantic Petroleum, um fimm prósent. Bréf í Flögu höfðu lækkað um rúm fjögur prósent og Bakkavarar um 2,9 prósent. Ekkert félag hafði hækkað.

Krónan hefur veiktst um rúmlega hálft prósent í morgun og stendur bandaríkjadalur nú í tæpum 62 krónum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×