Erlent

Tengsl milli tekna og offitu barna

Fylgst var með börnum til þriggja ára aldurs.
Fylgst var með börnum til þriggja ára aldurs.

Ný rannsókn bendir til þess að börn ríkra foreldra og vinnandi mæðra séu í meiri hættu á að verða of feit.

Vísindamenn hjá „The Institute of Child Health" í London fylgdu eftir þrettán þúsund börnum frá fæðingu til þriggja ára aldurs. Um 23 prósent barnanna voru orðin of þung eða of feit við þriggja ára aldur.

Rannsakendur fundu tengingu milli hættunnar á offitu og launa foreldranna. Á þeim heimilum þar sem innkoma fjölskyldunnar var 22 til 33 þúsund pund á ári (2,8 milljónir til 4,1 milljón) voru börn tíu prósentum líklegri til að verða of feit en á þeim heimilum þar sem innkoman var 11 þúsund á ári eða minni. Börn á heimilum þar sem innkoman var yfir 33 þúsund pund á ári voru 15 prósent líklegri til að verða of feit. Rannsakendur töldu þetta afsanna þá kenningu margra að offita sé í mestum mæli vandamál á fátækari heimilum.

Rannsakendur töldu sig einnig finna vísbendingar um að börn vinnandi mæðra séu líklegri til að verða of þung en börn mæðra sem vinna heima. Töldu þeir líklegt að fjarvera móður, frekar en peningaleysi, kæmi í veg fyrir að börn fengju heilsusamlegt fæði og hreyfingu. Einnig gæti fjarvera foreldra aukið neyslu barna á ruslfæði og aukið sjónvarpsáhorf. Þá væru vinnandi mæður ólíklegri til að vera með börnin á brjósti eins lengi og mælt sé með.

Í Bretlandi hefur vinnandi mæðrum fjölgað mjög síðustu ár. Fyrir 25 árum voru 55 prósent mæðra heimavinnandi en í dag eru 21 prósent heima.

Af vef BBC http://news.bbc.co.uk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×