Innlent

Þrír greinst með berklasmit á árinu

Starfsmaður á Kárahnjúkum greindist með berklasmit á árinu.
Starfsmaður á Kárahnjúkum greindist með berklasmit á árinu.

Þrír einstaklingar hafa greinst með berkla á íslandi það sem af er árinu. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum sem nýlega voru gefin út á vef landlæknisembættisins.

Í tveimur tilvikum þótti ástæða til að gangast fyrir allumfangsmikilli rannsókn til að rekja hugsanlegt smit. Í maímánuði sl. greindust smitandi berklar hjá 84 ára gömlum vistmanni á elliheimili norður í landi. Í kjölfarið voru alls 157 manns sem höfðu haft samskipti við sjúklinginn rannsakaðir með tilliti til smits.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að enginn þeirra hafi smitast af berklum. Hitt atvikið snerti erlendan starfsmann við Kárahnjúkavirkjun.

Í kjölfarið hófst rannsókn á 159 starfsmönnum á svæðinu sem höfðu haft samskipti við sjúklinginn. Rannsóknin stendur enn yfir og er lokið rannsókn á 68 starfsmönnum, en enginn þeirra er talinn hafa smitast frá sjúklingnum.

Þó reyndust fimm þeirra með jákvætt berklapróf en voru ekki með lungnaberkla. Við slíku má búast því að víða erlendis er bólusett gegn berklum eða fólk kemst í snertingu við berklabakteríu þar sem sjúkdómurinn er landlægur.

Farsóttafréttir má nálgast á vefnum www.landlaeknir.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×