Innlent

Sextán manns slösuðust í rútuslysi í Bessastaðabrekku við Kárahnjúka

Sextán manns slösuðust þar af tveir alvarlega þegar rúta ók í Klettavegg í Bessastaðabrekku í Fljótsdal rétt hjá Kárahnjúkum í dag. Þrjátíu og einn maður var í rútunni, allt útlendir starfsmenn við Kárahnjúkavirkjun. Enginn er talinn í lífshættu.



Það var rétt eftir hádegi í dag þegar rúta með 31 farþega frá Póllandi og Lettlandi keyrði út af veginum í Bessastaðabrekku í Fljótsdal rétt hjá Kárahnjúkum. Svo virðist sem bílstjórinn hafi ekki náð krappri beygjunni í brekkunni, ekið út af veginum og skollið á klettavegg. Af myndunum má sjá að talsvert högg hlaust af.

Sextán manns þurfti að flytja á sjúkrahús vegna beinbrota og annarra áverka og eru tveir taldir alvarlega slasaðir en þó ekki í lífshættu. 10 voru fluttir til Reykjavíkur á Landspítala Háskólasjúkrahús, tveir á Fjórðungssjúkrahús á Akureyri, og fjórir á heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað. Hinir farþegarnir fengu aðhlynningu á heilsugæslunni á Egilsstöðum. Farþegarnir voru allir verkamenn hjá Verktakafyrirtækinu Arnarfelli sem byggja hraunaveitu í Jökulsá í Fljótsdal.

Tvær þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út til að flytja slasaða á sjúkrahús. Sjúkraflugvélar voru einnig notaðar frá Akureyri og Egilsstöðum. Þá flutti flugvél Flugfélags Íslands lækna og hjúkrunarfólk austur til að hlúa að fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×