Viðskipti innlent

LME skoðar yfirtöku á Stork-samstæðunni

Árni Oddur Þórðarsson, framkvæmdastjóri Eyris Invest og stjórnarformaður Marels, ræðir við Hörð Arnarson, forstjóri Marel Food Systems.
Árni Oddur Þórðarsson, framkvæmdastjóri Eyris Invest og stjórnarformaður Marels, ræðir við Hörð Arnarson, forstjóri Marel Food Systems. Mynd/Anton

Marel hefur hug á að kaupa allt hlutafé hollensku iðnsamsteypunnar Stork en ekki einungis matvælavélavinnsluhluta hennar. Þetta kom fram á hluthafafundi í Stork sem fram fór í dag. Maarten Muller, lögmaðurinn LME eignarhaldsfélags, sem Marel á fimmtungshlut í á móti Eyri Invest og Landsbankanum, sagði félagið skoða alla möguleika og væri yfirtökutilboð einn þeirra.

LME hefur aukið hratt við hlut sinn í Stork og fer nú með rúm 32 prósent hlutabréfa í samstæðunni. Félagið, sem hefur frá því í fyrra leitast eftir því að kaupa matvælavinnsluvélahluta Stork, hefur frá upphafi verið mótfallið 1,5 milljarða evra yfirtökutilboði breska fjárfestingasjóðsins Candover í samstæðuna. Tilboðið jafngildir 47 evrum á hlut eða rúmum 133 milljörðum íslenskra króna. Gengið hefur hækkað nokkuð síðan það var lagt fram í júní en stendur nú í 47,49 evrum á hlut.

Að sögn fréttastofu Reuters er yfirtökutilboðs frá LME og Marel í Stork ekki að vænta fyrr en eftir 4. september næstkomandi en þá rennur tilboð Candover út.

Ætla má að miðað við gengi Stork í dag nemi markaðsverðmæti hlutar LME í félaginu rúmum 43 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×