Innlent

Páll Hreinsson nýr hæstaréttardómari

MYND/Rósa

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur skipað Páll Hreinsson, prófessor við Háskóla Íslands, hæstaréttardómara í stað Hrafns Bragasonar sem lætur af störfum sökum aldurs um næstu mánaðamót. Páll var í hópi fjögurra umsækjenda en auk hans sóttu Viðar Már Matthíasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA dómstólinn í Luxemborg, Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari við héraðsdóm Reykjavíkur, um embættið.

Páll hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 1999 og forseti lagadeildar Háskólans í rúm tvö ár. Hann lauk doktorsprófi í lögfræði árið 2005. Hann hefur meðal annars hlotið viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við Háskóla Íslands en þá viðurkenningu veitti rektor Háskóla Íslands. Páll hefur kennt við háskólann frá árinu 1988. Fræðasvið Páls er stjórnsýsluréttur. Viðskiptabréf. Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Páll Hreinsson er fæddur árið 1963 og er því 44 ára og verður með þessari skipun yngstur dómara Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×