Viðskipti innlent

Hagnaður eykst hjá Sparisjóði Vestfirðinga

Frá Ísafirði. Hagnaður Sparisjóðs Vestfirðinga, sem hefur útibú víða á Vestfjörðum, tæplega fjórfaldaðist á milli ára.
Frá Ísafirði. Hagnaður Sparisjóðs Vestfirðinga, sem hefur útibú víða á Vestfjörðum, tæplega fjórfaldaðist á milli ára.

Hagnaður Sparisjóðs Vestfirðinga nam 822 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 217 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Þetta er tæp fjórföldun á milli ára. Tekið er fram í árshlutauppgjöri sjóðsins að við innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla hækkaði eigið fé hans um 512 milljónir króna.

Þá segir ennfremur að samanburðarfjárhæður vegna síðasta árs hafi verið breytt til samræmis við nýjar reikningsskilareglur.

Hreinar vaxtatekjur sjóðsins námu 104 milljónum króna, sem er tveggja milljóna króna lækkun frá síðasta ári. Hreinar rekstrartekjur námu 1.323 milljónum og er það 786 milljónum krónum meira en í fyrra.

Þá nam rekstrarkostnaður á tímabilinu 232 milljónum króna sem er 32 milljónum krónum meira en í fyrra.

Heildareignir námu rúmum 11,5 milljörðum króna og er það 13 prósenta aukning frá síðasta ári. Arðsemi eigin fjár var 84 prósent miðað við 37,7 prósent í fyrra en eigið fé nam 3,1 milljarði króna. Það er 34 prósentum meira en á fyrri hluta árs 2006. Í ofanálag hækkaði eiginfjárhlutfall sjóðsins úr 12 prósent í lok síðasta árs í 14 prósent í lok júní. Í

Í uppgjöri sjóðsins segir að verðbréf sjóðsins hafi hækkað umtalsvert á fyrri hluta árs. Eftir að reikningstímabilinu lauk lækkaði verðbréfaeignin nokkuð en hún er að mestu gengin til baka, að því er segir í uppgjörinu og bent á að gert sé ráð fyrir góðri afkomu á árinu í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×