Viðskipti innlent

Hagnaður HS 2,7 milljarðar króna

Hitaveita Suðurnesja.
Hitaveita Suðurnesja.

Hitaveita Suðurnesja hagnaðist um 2.720 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 352 milljónum króna meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra.

Í árshlutauppgjöri hitaveitunnar kemur fram að rekstrartekjur hafi numið 4.048 milljónum króna samanborið við 2.682 milljónir króna árið á undan. Rétt rúmur helmingur hækkunarinnar stafar aðallega af raforkusölu til Norðuráls sem jókst um 692 milljónir króna og 636 milljóna króna eingreiðslu frá Bandaríkjastjórn vegna uppsagnar hennar á samningi um kaup á orku til varnarliðsins.

Rekstrargjöld á sama tíma námu 2.364 milljónum króna samanborið við 1.638 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Hækkun rekstrargjalda er vegna hækkana á kostnaði við framleiðslu, sölu og dreifingu á raforku.

Hreinar fjármunatekjur námu 1.581 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins en það er rúmum 1,1 milljarði meira en á sama tíma í fyrra. Styrking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum leiðir til 1.636 milljóna króna gengishagnaðar, en á fyrri helmingi

ársins 2006 var gengistap að fjárhæð 1.574 milljónir króna, að því er fram kemur í uppgjörinu.

Eignir Hitaveitu Suðurnesja námu 35.867 milljónum króna í júnílok og hækkuðu þær um 2,975 milljónir frá áramótum.

Þá var eigið fé 20.207 milljónir króna í lok júní en það var 17.887 milljónir í upphafi árs. Eiginfjárhlutfall jókst sömuleiðis. Það nam 56 prósentum í lok tímabilsins en var 54 prósent í byrjun árs.

Sérstaklega er tekið fram í uppgjörinu að við innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla hækkaði eigið fé félagsins um 2.192 milljónir króna í árslok 2006.

Uppgjör Hitaveitu Suðurnesja






Fleiri fréttir

Sjá meira


×