Talsverður viðsnúningur varð á afkomu Eglu hf., sem er að stærstum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar í Samskipum, á fyrstu sex mánuðum ársins en hagnaðurinn á tímabilinu nam tæpum 23,1 miljarði króna samanborið við 899 milljóna króna tap á sama tíma í fyrra. Gangvirðisbreyting hlutabréfa Eglu var jákvæð um rúma 22,5 milljarða króna á tímabilinu samanborið við neikvæða gangvirðisbreytinga upp á 431 milljón króna á sama tíma í fyrra.
Heildareignir Eglu námu 134.388 milljónum króna í lok júní. Eigið fé nam 75.700 milljónum króna og hefur vaxið um 23.076 milljónir króna á tímabilinu.
Í uppgjöri Eglu segir að félagið eigi eignarhluti í traustum fyrirtækjum og sé búist við að þau skili Eglu góðri ávöxtun í framtíðinni.
Viðskipti innlent