Glitnir Property Holding í Noregi hefur náð samkomulagi um kaup á norska fasteignafélaginu BSA og stefna félögin að því að verða leiðandi í ráðgjöf og fjármögnun í fasteignaviðskiptum í Noregi. BSA er jafnframt með starfsemi í Þýskalandi. Eignir sameinaðra fyrirtækja nema 2,7 milljörðum evra, jafnvirði tæpra 235 milljarða íslenskra króna.
Samruni fyrirtækjanna þarf að undirgangast skoðun samkeppniseftirlita í Noregi og hér en gangi viðskiptin eftir verða starfsmenn Glitnis Property Holdin 84 talsins með skrifstofur í Ósló í Noregi, Stokkhólmi í Svíþjóð, Helsinki í Finnlandi og í Frankfurt í Þýskalandi.
Haft er eftir Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, í tilkynningu frá bankanum, að kaupin styrki stöðu Glitnis enn frekar á norrænum fasteignamarkaði.
Kaupverð er ekki gefið upp en það verður greitt í reiðufé og nýju hlutafé í Glitni Propert Holding.