Innlent

Auglýsing Símans er ósmekkleg - Biskupsstofa

Óli Tynes skrifar

Ný auglýsing frá Símanum hefur farið fyrir brjóstið á mörgum. Verið er að auglýsa nýjan farsíma og talað um að hann breyti gangi sögunnar. Og það er sannarlega farið inn í söguna því inn í þessa auglýsingu er skeytt síðustu kvöldmáltíðinni og samskiptum Júdasar og Krists. Þeir tala saman í farsíma. Auglýsingin er birt bæði í sjónvarpi og dagblöðum.

Mörgun finnst þetta sniðug auglýsing. Öðrum finnst hins vegar mjög óviðeigandi að flétta síðustu kvöldmáltíðina inn í auglýsingabrellu. Nokkrir sem fréttastofan hefur rætt við hafa jafnvel velt því fyrir sér hvort þetta sé ekki hreinlega guðlast.

Halldór Reynisson hjá Biskupsstofu sagði í samtali við fréttastofuna að Biskupsstofa skipti sér alla jafna ekki af auglýsingum fyrirtækja. Því væri þó ekki að leyna að þeim þætti þessi auglýsing ósmekkleg.

Síminn vonast væntanlega til þess að auglýsingin skili hagnaði. Það er spurning hvort, af þessu tilefni, einhver ryðst inn í þann Mammons rann og veltir um borðum. Það mun vera fordæmi fyrir því.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×