Viðskipti innlent

Sparisjóður Bolungarvíkur keyrir á verðbréfaeign

Sparisjóður Bolungarvíkur hagnaðist um 230 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 62 milljónir á sama tíma í fyrra. Þetta jafngildir því að hagnaðurinn hafi tæplega fjórfaldast á milli ára. Mestu munar um tekjur af veltufjármunum og öðrum eignum en vaxta- og þjónustutekjur drógust saman á milli ára.

Í uppgjöri sparisjóðsins kemur fram að hreinar þjónustutekjur rúmum 9,2 milljónum króna á tímabilinu en þær voru 11,9 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Hreinar rekstrartekjur nú hækka hins vegar úr 202,5 milljónum króna í 395 milljónir króna. Þar af nemur hreinar tekjur af veltufjármunum og veltuskuldum 24,3 milljónum króna en hreinar tekjur af öðrum fjáreignum á gangvirði í gegnum rekstur, svo sem af hlutabréfaeign, 287,9 milljónum króna. Þetta er talsverð hækkun á milli mánaða.

Þá nam eigið fé 1.464 milljónum króna og var arðsemi eigin fjár var 37,5 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins en var 11,8 prósent á sama tíma í fyrra. Eiginfjárhlutfall nam 20,7 prósentum í lok júní en var 24,3 prósent undir lok síðasta árs.

Heildareignir nema rúmum sjö milljörðum króna og aukast þær um 4,6 prósent frá lokum síðasta árs.

Í uppgjörinu segir að afkoman hafi verið umfram væntingar á fyrstu sex mánuðum ársins. Gert er ráð fyrir að hún verði góð á seinni hluta árs en tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir sömu hækkunum á verðbréfum sjóðsins á tímabilinu.

Uppgjör Sparisjóðs Bolungarvíkur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×