Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 750 milljörðum króna í síðasta mánuði og hefur hún aldrei verið jafn mikil í einum mánuði. Greiningardeild Glitnis segir ástæðuna óróa á fjármálamörkuðum heims í kjölfar vandræða í Bandaríkjunum tengdum annars flokks húsnæðislánum (e. subprime).
Krónan veiktist um 6,3 prósent milli mánaða samfara þessum hræringum en gengi hennar hafði styrkst jafnt og þétt fyrri hluta sumars, að sögn greiningardeildar Glitnis, sem bendir á að mestu lætin hafi verið framundir 20. ágúst en markaðurinn hafi róast töluvert síðan þá.
Greiningardeildin segir að í fyrri hluta ágústmánaðar fylgdi gengi krónunnar hreyfingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum nokkuð vel eftir. Leitnin á hreyfingum á gengi krónunnar undanfarin misseri hafi fylgt gengi annarra hávaxtamynta, svo sem nýsjálenska dalnum, æ meir. Tilkoma útgáfu krónubréfa í landinu hefur verið stór þáttur í að færa íslenskan gjaldeyrismarkað nær öðrum hávaxtamyntum á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði, að sögn Glitnis.