Innlent

Tífaldur munur á stærstu forlögunum

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Forlagið - sem verður til þegar Mál og menning og JPV sameinast - verður að minnsta kosti tífalt stærra en næst stærsta bókaútgáfa landsins.

Miklar sviptingar hafa verið í útgáfuheimi landsins síðustu vikur. Mál og menning keypti útgáfuhluta Eddunnar og áður en við var snúið hafði JPV keypt Mál og menningu. Þá er Baugur kominn í bókaútgáfu, eða réttara sagt Hjálmur, sem stofnaði Skugga í sumar þar sem Illugi Jökulsson ræður ríkjum. En hverju breyta þessar nýjustu sviptingar á útgáfusenu landsins?

Talið er að bókamarkaðurinn velti um þremur til þremur og hálfum milljarði króna á ári. Ef einungis er litið á samkeppnisbókamarkaðinn, og námsbækurnar ekki taldar með, þá var Eddan í fyrra langstærsta bókaútgáfa landsins með um einn komma fjóra milljarða króna í veltu, en útgáfuhlutinn var um 8-900 milljónir króna. JPV var næststærst, nærri hálfdrættingur á við Edduna með um 400 milljónir í veltu. Þriðja stærsta útgáfan Bjartur velti þá um 100 milljónum. Kippa af minni forlögum áttu síðan smásneið af markaðnum.

Þótt Eddan hafi trónað yfir samkeppnisaðila sína í fyrra - þá er það ekkert í samanburði við það hvernig nýja útgáfan Forlagið - sem verður formlega til um næstu mánaðamót - mun gnæfa yfir aðra. Líkleg velta þess fyrirtækis er um 1,4 milljarðar á meðan næststærsta forlagið, sameinað forlag Bjarts og Veraldar, áætlar uppundir 140 milljóna króna veltu. Munurinn er tífaldur. Formaður Félags bókaútgefenda líst ekki illa á þessa nýju stöðu.

Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, óttast ekki að útgáfurisi drepi minni forlögin. Risinn sitji við sama borð gagnvart smásalanum.

 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×