Innlent

Eðlilegt að Róbert fái þyngri dóm en ella

Atli Gíslason, alþingismaður og lögmaður segir að með brotum sínum hafi Róbert Árni Hreiðarsson varpað skugga á heiður lögmannastéttarinnar. Hann segir mjög eðlilegt að Róbert Árni fái þyngri dóm en ella í ljósi þess að hann er lögmaður. Atli segir dóminn þó ekki of þungann, sérstaklega ef tekið er mið af þeim afleiðingum sem brot af þessu tagi hafa.

„Mér finnst dómurinn ekki of þungur," segir Atli Gíslason. „Hann er fundinn sekur, afleiðingarnar eru svakalegar og miðað við það finnst mér hann ekki of þungur. Ég hefði þó ekki haldið fyrirfram að dómurinn yrði þetta þungur." Atli segir eðlilegt að Róbert fái þyngri dóm en ella vegna þess að hann er lögfræðingur. „Hann sem lögmaður á að gera sér betri grein fyrir eðli og afleiðingum gjörða sinna. En þetta er sem betur fer eina dæmið sem ég veit um á mínum 30 ára ferli að lögmaður hafi gerst sekur um brot af því tagi sem hér um ræðir."

Róbert Árni var svipptur lögmannsréttindum sínum að kröfu saksóknara. Atli hafði áður en dómur féll gagnrýnt lögfræðingafélag Íslands fyrir að svipta hann ekki réttindum sínum tímabundið þangað til dómur félli.

„Ég var raunar þeirrar skoðunnar að hann hefði sjálfur átt að leggja inn réttindi sín en þar sem hann gerði það ekki hefði stjórn félagsins að grípa inn í. Ég er því ósáttur við framgöngu stjórnar félagsins í þessu máli."

Róbert Árni getur, að lokinni afplánun, sótt um að fá lögmannsréttindi sín aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×