Fótbolti

Brann með sjö stiga forskot í Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ármann Smári Björnsson var á skotskónum með Brann um helgina.
Ármann Smári Björnsson var á skotskónum með Brann um helgina. Mynd/Scanpix

Íslendingaliðið Brann er hársbreidd frá því að tryggja sér norska meistaratitilinn eftir 5-1 sigur á Lilleström um helgina.

Ármann Smári Björnsson lagði upp fyrsta markið í sigri Brann og skoraði svo sjálfur annað markið. Hann var svo tekinn af velli í hálfleik þegar staðan var 3-0 og leikurinn unninn.

Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason léku allan leikinn í vörn Brann eins og þeir hafa gert í nánast allt sumar.

Brann hefur nú sjö stiga forskot á Viking sem situr í öðru sæti deildarinnar. Fjórir leikir eru eftir af tímabilinu og mun aðeins stórslys koma í veg fyrir að Brann verði meistari í fyrsta sinn síðan 1963.

Meistaralið Rosenborg hefur gengið skelfilega í ár og situr í sjöunda sæti deildarinnar, sextán stigum á eftir Brann.

Þá skoraði Garðar Jóhannsson eitt og lagði upp annað í 4-3 sigri Fredrikstad á Rosenborg um helgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×