Lögmaðurinn Róbert Árni Hreiðarsson, sem dæmdur var í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum er væntanlegur til landsins á næstunni. Hann hyggst loka lögmannsstofu sinni og koma þeim málum sem hann hefur verið með yfir á aðra lögmenn.
Róbert hefur dvalið á Spáni undanfarna mánuði og var til að mynda ekki viðstaddur þegar dómur var kveðinn upp í máli hans í síðustu viku. Hann hefur lengi rekið lögmannsstofu á Lækjartorgi en strax eftir að dómur var kveðinn upp var nafn hans fjarlægt úr gluggum stofunnar. Héraðsdómur svipti Róbert Árna lögmannsréttindum og þarf hann nú að finna aðra lögmenn til að taka við þeim málum sem hann hefur unnið að á síðustu misserum.
Ekki hefur náðst í Róbert Árna frá því að dómur var kveðinn upp þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.