Fernando Alonso sagði eftir keppnina í Kína í morgun að eitthvað mikið þyrfti til að hann yrði meistari.
Eitt mót er eftir en félagi Alonso hjá McLaren, Lewis Hamilton, er enn með fjögurra stiga forskot á hann. Hamilton féll úr leik í Kína í morgun.
„Það þarf eitthvað dramatískt til," sagði Alonso. „Það verður gríðarlega erfitt fyrir mig að vinna upp fjögurra stiga forskot í einni keppni. Það er ómögulegt í hefðbundinni keppni."
Kimi Raikkönen sigraði í keppninni í morgun og innbyrti þar með 200. sigur Ferrari-liðsins í Formúlunni.
„Þetta verður athyglisvert," sagði Raikkönen um lokakeppnina. „Ferrari-bíllinn var sterkur í Brasilíu í fyrra og verður það vonandi aftur. En við sáum í dag að allt getur gerst og því eigum við enn möguleika á titlinum."
Í fyrsta sinn síðan 1986 eiga þrír ökumenn enn möguleika á meistaratitlinum þegar einni keppni er ólokið. Sjö stig skilja af efstu þrjá menn, þá Hamilton, Alonso og Raikkönen.
