Fótbolti

Brann getur orðið norskur meistari á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnson og Kristján Örn Sigurðsson, tveir af þremur íslenskum leikmönnum í Brann.
Ólafur Örn Bjarnson og Kristján Örn Sigurðsson, tveir af þremur íslenskum leikmönnum í Brann. Mynd/Bergensavisen

Brann mætir á morgun Álasundi í norsku úrvalsdeildinni og getur með jafntefli eða sigri  tryggt sér meistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 1963.

Þrír Íslendingar leika með félaginu. Það eru þeir Ólafur Örn Bjarnason, Kristján Örn Sigurðsson og Ármann Smári Björnsson.

Vísir náði tali af Kristjáni Erni þar sem hann var á flugvellinum í Björgvin á leið til Álasunds.

„Stemningin í hópnum er mjög fín. Við hittumst aftur í dag eftir landsleikjafríið en við erum samt allir á því að klára þetta með stæl á morgun,“ sagði Kristján Örn.

Eftir að Brann vann Lyn í síðustu umferð segir Kristján að allt hefði orðið vitlaust í bænum.

„Fólkið í bænum er afar spennt enda langt síðan að Brann varð meistari. Við fáum því mjög góðan stuðning. En þetta er þó ekki komið ennþá.“

Þrjár umferðir eru eftir í norsku úrvalsdeildinni og nægir Brann eitt stig úr þeim leikjum.

Kristján segir að leikmenn Brann ætli þó að sækja til sigurs. „Við mætum til leiks á morgun eins og við höfum gert í öllum okkar leikjum. Ef við náum góðum leik á ég von á góðum úrslitum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×