Handbolti

Kastaði í andlit markvarðarins og fékk rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Baldvin Þorsteinsson skoraði ellefu mörk fyrir Val í dag. Hér er hann í strangri gæslu Eyjamanna.
Baldvin Þorsteinsson skoraði ellefu mörk fyrir Val í dag. Hér er hann í strangri gæslu Eyjamanna. Mynd/Anton

Sigurður Bragason, leikmaður ÍBV, fékk að líta rauða spjaldið í leik Vals og ÍBV í dag fyrir að kasta boltanum í andlit Pálmars Péturssonar, markvarðar Vals, í vítakasti.

Leikurinn hafði verið nokkuð jafn fram að því en þegar þarna var komið var staðan 7-6 fyrir Val. Hefði Sigurður skorað hefði hann jafnað metin fyrir ÍBV. Eftir þetta seig Valur fram úr og vann að lokum öruggan tólf marka sigur, 31-19.

Friðrik Sigmarsson átti stórleik í marki ÍBV í fyrri hálfleik og varði sautján skot. Alls varði hann 23 skot í leiknum.

Í marki Vals varði Pálmar 21 skot. Baldvin Þorsteinsson skoraði ellefu mörk í leiknum, þar af fjögur úr víti. Arnór Gunnarsson kom næstur hjá Val með fimm mörk.

Markahæstur hjá ÍBV var Nikolav Kulikov með sex mörk.

Fyrr í dag skaust Stjarnan á topp deildarinnar eftir sigur á Akureyri. Valur er nú í fimmta sæti með fimm stig eftir sex leiki. ÍBV er á botninum, enn stigalaust eftir sex leiki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×