Viðskipti innlent

Kaupþing spáir aukinni verðbólgu og óbreyttum vöxtum

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sem reiknar með því að verðbólga fari í 4,7 prósent í næsta mánuði.
Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sem reiknar með því að verðbólga fari í 4,7 prósent í næsta mánuði. Mynd/E.Ól.

Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,2 prósent á milli mánaða í nóvember. Gangi það eftir hækkar verðbólga úr 4,5 prósentum nú í 4,7 prósent. Kaupþing spáir því að seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,3 prósentum á fimmtudag.

Spá greiningardeildarinnar er á svipuðum nótum nú og fyrri mánuði. Gert er ráð fyrir því að hækkun á fasteignaverði og eldsneyti ýti undir vísitöluna, þó með minna móti en undanfarið.

Greiningardeildin reiknar með að Seðlabankinn muni færa væntanlegt stýrivaxtalækkunarferli aftar en áður var gert ráð fyrir, eða allt aftur í maí á næsta ári. Ástæðurnar fyrir því eru meiri verðbólga og efnahagsumsvif en fyrri spár bankanna gerðu ráð fyrir, að sögn Kaupþings.

Þá er bent á að hráefnaverð og heimsmarkaðsverð á hráolíu hafi hækkað og slagar nú hátt í 95 dali á tunnu. Reikna má með að það skili sér í hærra eldsneytisverði á næstunni, að mati Kaupþings.

Kaupþings segir verðbólguhorfur á næsta ári góðar en gert sé ráð fyrir minnkandi spennu á sama tíma og dragi úr verðhækkunum á fasteignamarkaði. Óvissuþættirnir séu hins vegar margir, fremur á uppleið en hitt enda sé hætta á að umsvif hjaðni hægar á fasteignamarkaði og hækkun íbúðaverðs reynist hærri en greiningardeildina hafi gert ráð fyrir í spá sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×