Körfubolti

Jón Arnór með fjórtán stig gegn Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór með Roma gegn Panathinaikos fyrir tveimur vikum.
Jón Arnór með Roma gegn Panathinaikos fyrir tveimur vikum. Nordic Photos / AFP

Jón Arnór Stefánsson átti góðan leik þegar lið hans, Lottomatica Roma, tapaði á útivelli fyrir Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í körfubolta.

Real Madrid vann leikinn, 89-83 og voru með forystu allan leikinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-17 en Rómverjar söxuðu jafnt og þétt á forskotið í næstu tveimur leikhlutum. Jón Arnór skoraði svo þriggja stiga körfu seint í þriðja leikhluta og jafnaði metin, 62-62.

Staðan þegar fjórði leikhluti hófst var 66-64 og voru heimamenn einfaldlega sterkari á lokasprettinum.

Jón Arnór spilaði í 22 mínútur í leiknum, skoraði fjórtán stig og hitti úr fimm af sjö skotum sínum utan af velli. Hann nýtti einnig bæði vítaskotin sín.

Lottomatica Roma hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa í riðlinum en andstæðingarnir hafa verið gríðarlega sterkir.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×