Viðskipti innlent

Fjöldi félaga fellur í Kauphöllinni

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, en gengi bréfa í félaginu skall niður í lægsta gildi sitt frá upphafi í Kauphöllinni í dag.
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, en gengi bréfa í félaginu skall niður í lægsta gildi sitt frá upphafi í Kauphöllinni í dag.

Gengi hlutabréfa í Icelandair féll um sex prósent og fór í 22,3 krónur á hlut skömmu eftir að viðskipti hófust í Kauphöll Íslands í dag. Gengi bréfa í félaginu hefur aldrei verið lægra. Fjöldi félaga í Kauphöllinni tók sömuleiðis á sig skell og féll Úrvalsvísitalan um tæp 2,4 prósent.

Auk Icelandair, sem hefur lækkað mest það sem af er dags, féll gengi allra íslensku fjármálafyrirtækjanna. Gengi bréfa í FL Group fór niður um 4,2 prósent, Existu um 3,8 prósent og Staums um rúm þrjú prósent.

Gengi bréfa í Kaupþingi féll um tæp 2,5 prósent og stendur gengi bréfa í félaginu í 982 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun mars á þessu ári.

Gengi bréfa í Föroya banka hækkaði hins vegar lítillega eftir að hafa legið í lægsta gengi sínu. Svipuðu máli gegnir um SPRON. Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum er hins vegar á fleygiferð en gengi bréfa í því rauk upp um þréttan prósent skömmu eftir að viðskiptadagurinn hófst og fór í hæstu hæðir. Það hefur lækkað lítillega og stendur gengið nú í 2.278 krónum á hlut.

Úrvalsvísitalan stendur í 7.367 stigum og hefur hækkað um 14,92 prósent á árinu. Vísitalan hefur ekki verið jafn lág síðan seint í mars á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×