Fótbolti

Árni Gautur: Skoða öll tilboð með opnum huga

Árni Gautur er hættur hjá Valerenga
Árni Gautur er hættur hjá Valerenga NordicPhotos/GettyImages

Landsliðsmarkvörðurinn Árni Gautur Arason hefur ákveðið að hætta hjá norska liðinu Valerenga. Hann segir hafa verið kominn tíma til að breyta til eftir þrjú og hálft ár í herbúðum liðsins.

Árni var með lausa samninga hjá norska liðinu, en segir það hafa boðið honum samning fyrir nokkru síðan. "Ég var bara óákveðinn á þeim tíma og var ekki tilbúinn til að semja áfram, enda hefur blundað í mér að breyta til. Ég fundaði svo með þeim í gær og þar ákváðum við að þetta væri orðið ágætt í bili og þeir ætla að finna sér annan markvörð til framtíðarinnar," sagði Árni í samtali við Vísi í kvöld.

Hann segir framtíð sína algjörlega óráðna og ætlar að setjast niður og skoða hvaða möguleikar eru í boði. "Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir frá liðum héðan og þaðan frá Evrópu, bæði í Noregi og annarsstaðar, en það er allt á grunnstigi ennþá og því er ekkert hægt að segja um það," sagði Árni.

Hann útilokar ekkert í framtíðinni, en þykir ólíklegt að til greina komi að koma heim til Íslands að spila. "Ég á ekki von á því að koma heima að spila en ég mun skoða allt með opnum huga - hvort sem það verður hér í Noregi eða hvað það verður," sagði Árni.

Árni hefur verið hjá Valerenga síðan árið 2004 og var lykilmaður í liðinu sem vann meistaratitilinn árið 2005 eftir langa bið. Þar áður var hann margfaldur meistari með liði Rosenborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×