Körfubolti

Jackson framlengir við Lakers

Phil Jackson er ekki búinn að segja sitt síðasta í NBA og stefnir á að ná í 10. titilinn áður en hann hættir
Phil Jackson er ekki búinn að segja sitt síðasta í NBA og stefnir á að ná í 10. titilinn áður en hann hættir NordicPhotos/GettyImages

Phil Jackson, þjálfari LA Lakers í NBA deildinni, tilkynnti í gær að hann væri búinn að samþykkja að framlengja samning sinn við félagið til tveggja ára. Hann verður því á mála hjá Lakers út leiktíðina 2010.

Jackson verður ekki á neinum sultarlaunum á samningstímanum og fær tæpan einn og hálfan milljarð króna næstu tvö árin. Jackson hefur því halað inn um fimm milljarða króna hjá Lakers þegar þessi samningur rennur út.

Hann stýrði liðinu á fimm ára og 30 milljón dollara samningi árin 1999-2004 og fékk annan eins samning fyrir aðeins þrjú ár árið 2005 en sá samningur var að renna út nú.

Jackson var spurður að því hvort hann gæti séð fyrir sér að framlengja enn á ný eftir að nýi samningurinn rennur út. "Ég veit það ekki - það er erfitt að segja. Ég er að verða svo gamall að ég er hættur að skilja hvað þessir ungu menn eru að segja," sagði Jackson í gamansömum tón.

"Ætli ég haldi ekki áfram á meðan líkami og sál endast í þessu," sagði Jackson, sem vann sex meistaratitla með Chicago Bulls á síðasta áratug og svo þrjá til við bótar hjá Lakers upp úr aldarmótunum. Aðeins Jackson og Red Auerbach heitinn hjá Boston geta státað af öðrum eins árangri í sögu NBA deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×