Viðskipti innlent

FL Group lækkaði um 26 milljarða

FL Group er enn í frjálsu falli.
FL Group er enn í frjálsu falli.

Virði FL Group rýrnaði um 26 milljarða í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfanna jafnaði sig lítillega við lokun markaða eftir 18,18 prósenta fall við upphaf dags. Lægst fór gengið í 15,65 krónur á hlut en endaði í 16,35 krónum. Lækkunin kemur í kjölfar mikilla hræringa innan veggja fyrirtækisins, svosem með brotthvarfi Hannesar Smárasonar, forstjóra FL Group, og hræringum með hlutabréf félagsins.

Fleiri fyrirtæki í Kauphöllinni tóku á sig talsverðan skell í Kauphöllinni. Þannig féll gengi bréfa í SPRON um 5,91 prósent, í Exista um 4,57 prósent, í 365 um 3,17 prósent og bréf Atorku um 3,1 prósent. Gengi annarra félaga lækkaði minna.

Á sama tíma hækkaði gengi Alfesca, Össurar, Marels, Atlantic Petroleum og Straums. Mesta hækkunin var á gengi Alfesca, sem fór upp um 1,83 prósent.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,95 prósent og stendur hún í 6.510 stigum. Við upphaf viðskiptadagsins féll hún um rúm sex prósent og gufaði þar sem upp öll hækkun vísitölunnar á árinu.

Lækkanaferlið í Kauphöllinni er í engu samræmi við þróunina á erlendum hlutabréfamörkuðum í dag, sem flestir hverjir hafa verið á uppleið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×