Aganefnd HSÍ úrskurðaði í dag í máli þjálfara þjálfara Fram og Stjörnunnar eftir leik liðanna í N1 deild kvenna fyrir viku, þar sem dómarar leiksins fengu það óþvegið frá þjálfurunum í viðtölum eftir leikinn.
Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur verið settur í bann fram til 1. febrúar þar sem ummæli hans þóttu "órökstuddar dylgjur um dómara og stjórnendur handknattleikshreyfingarinnar og skaða hreyfinguna útávið," eins og segir í úrskurði aganefndarinnar. Aðalsteini hefur einnig verið gert að greiða 50000 krónur í sekt.
Aðalsteinn sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að þetta mál væri algjör sirkus frá upphafi til enda. Hann hefði ekki verið kallaður fyrir aganefndina né fengið að senda inn greinargerð og aganefndin hefði ekki tekið fyrir öll gögn í málinu. "Ég ætla að hugsa mín mál," sagði Aðalsteinn.
Einar Jónsson þjálfari Fram gekk líka vasklega fram í gagnrýni sinni eftir leikinn en hann hefur beðist afsökunar á framkomu sinni bæði persónulega og opinberlega og því slapp hann með ávítur og er áminntur um að gæta orða sinna í framtíðinni.