Viðskipti innlent

Atlantic Airways lækkar flugið

Magne Arge forstjóri Atlantic Airways, á fyrsta viðskiptadegi flugfélagsins. Gengi bréfa þess hefur lækkað um 2,1 prósent frá fyrsta degi.
Magne Arge forstjóri Atlantic Airways, á fyrsta viðskiptadegi flugfélagsins. Gengi bréfa þess hefur lækkað um 2,1 prósent frá fyrsta degi. Mynd/Vilhelm

Gengi hlutabréfa í færeyska flugfélaginu Atlantic Airways lækkaði um 0,66 prósent í Kauphöll Íslands í dag. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem gengi bréfa í bankanum lækkar en viðskipti með bréf þess hófust hér á landi á þriðjudag.

Upphafsgengi bréfa í félaginu var 259,5 danskar krónur á hlut. Það stendur nú í 254 krónur og nemur lækkunin því 2,1 prósenti á dögunum þremur.

Gengi bréfa í Atorku hækkaði hins vegar mest í dag, eða um 0,8 prósent. Markaðsverðmæti einungis þriggja félaga hækkaði en hins tvö eru Bakkavör og Landsbankinn.

Að öðru leyti lækkaði gengi banka og fjármálafyrirtækja mest í dag, að FL Group undanskildu en gengi bréfa fyrirtækisins hélst óbreytt á milli daga. Mesta lækkunin var á gengi færeyska bankans Eik banka, eða um 2,8 prósent.

Úrvalsvísitalan lækkaði um eitt prósent og stendur hún í 6.524 stigum. Þetta jafngildir því að vísitalan hafi hækkað um 1,77 prósent á árinu öllu. Hæst fór hún í 9.016 stig um miðjan júlí síðastliðinn og hefur hún því lækkað um 27,6 prósent síðan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×