Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann vængbrotið lið Spurs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lamar Odom átti góðan leik fyrir Lakers í nótt.
Lamar Odom átti góðan leik fyrir Lakers í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Hvorki Tim Duncan né Tony Parker voru með San Antonio Spurs í nótt sem tapaði þó naumlega fyrir LA Lakers.

Þar fyrir utan átti Manu Ginobili einn sinn slakasta leik á tímabilinu en hann hefur átt frábæru gengi að fagna til þessa. Hann var langt undir meðaltali sínu í nótt og skoraði fjórtán stig. Þar að auki tapaði hann sjö af þeim sextán boltum sem San Antonio tapaði í leiknum.

Leikurinn var jafn og spennandi en 18-5 sprettur Lakers í fjórða leikhluta var nóg til að gera út um leikinn.

Kobe Bryant var með 30 stig í leiknum og Lamar Odom kom næstur með fimmtán stig. Aðrir voru undir tíu stigum.

Hjá San Antonio var Bruce Bowen stigahæstur með 22 stig og Brent Barry kom næstur með sautján stig.

Duncan missti af sínum fjórða leik í röð en Parker af sínum fyrsta en báðir eiga þeir við meiðsli í ökkla að stríða.

Þetta var fjórði sigurleikur Lakers í röð en annar tapleikurinn í röð hjá San Antonio.

Antawn Jamison tekur niður frákast í leiknum í nótt.Nordic Photos / Getty Images

Aðeins voru tveir leikir á dagskrá NBA-deildarinnar í nótt en í hinum vann Washington Wizards góðan útivallasigur á Miami Heat. Síðarnefnda liðið er enn með næstlélegasta árangurinn í deildinni allri og þann lélegasta í Austurdeildinni.

Þetta var fyrsti sigur Washington á Miami í fjögur ár. DeShawn Stevenson var með 26 stig fyrir Washington og hitti til að mynda úr sex þriggja stiga skotum í leiknum sem er persónulegt met hjá honum.

Hann skoraði tólf af fyrstu 28 stigunum hjá Washington er liðið komst í tólf stiga forystu strax í fyrsta leikhluta. Mest varð forystan nítján stig í leiknum og var sigurinn öruggur.

Antawn Jamison bætti við sextán stigum og tók sextán fráköst og Brentan Haywood var með tólf stig og tíu fráköst.

Hjá Miami var Chris Quinn stigahæstur með 22 stig, Udonis Haslem var með nítján og ellefu fráköst og Dwyane Wade var með sautján stig.

Shaquille O'Neal tók aðeins sex skot í leiknum og gerði samtals sjö stig í leiknum og tók sex fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×