Viðskipti innlent

Afkoma TM undir spám

Tryggingamiðstöðin (TM) skilaði 696 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við tæpa 7,2 milljarða krónur árið 2005. Hagnaður tryggingafélagsins nam 231,6 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2006 sem er undir meðaltalsspá greiningardeilda viðskiptabankanna.

Meðaltalsspáin hljóðaði upp á 389 milljóna króna hagnað á fjórða ársfjórðungi. 

Rekstrarhagnaður TM á fjórða ársfjórðungi nam tæpum 549,4 milljónum króna samanborið við tæpar 1,3 milljarða krónur árið á undan.

Í ársuppgjöri TM kemur meðal annars fram að rekstrartap var af vátryggingastarfsemi upp á 358 milljónir króna samanborið við 481 milljóna króna tap árið á undan. Þar af nam tapið af innlendri vátryggingastarfsemi 48 milljónum króna.

Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi hér á landi námu 7.282 milljónum króna sem er 21 prósenta aukning á milli ára.

Þá jukust heildareignir TM úr 30.777 milljónum króna við árslok 2005 í 69.379 milljónir við lok síðasta árs. Aukningin nemur 125 prósentum á einu ári.

Bókfærð tjón TM á árinu 2006 námu 7.674 milljónum króna samanborið við 5.697 milljónir króna árið á undan og hækka þau því um 35 prósent.

Engin stór tjón urðu hjá TM á Íslandi en hjá Nemi urðu tvö skipatjón á fjórða ársfjórðungi, að því er segir í uppgjörin. Helsta skýring á auknum tjónakostnaði á Íslandi á árinu er fjölgun viðskiptavina og verðbólga, sem nemur 6,9 prósent en var 4,4 prósent árið 2005.

Handbært fé frá rekstri var 7.018 milljónir króna í fyrra samanborið við 2.448 milljónir króna árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×