Viðskipti innlent

Minna tap hjá Kögun

Kögun hf skilaði 983 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við tæplega 636 milljóna króna tap árið á undan. Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 3.632 milljónum króna á árinu sem er 99 prósenta hækkun frá 2005 auk þess sem rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 1.542 milljónum á árinu sem er liðleg tvöföldun á milli ára.

Í reikningi Kögunar eru samstæðureikningar félagsins og dótturfélaga þess, Verk- og kerfisfræðistofunnar hf., Kögurness ehf., Skýrr hf. og Teymis ehf, en rekstur EJS hf var innan samstæðu Skýrr hf frá 1. mars 2006. Rekstur dótturfélaga Kögunar hf sem voru innan samstæðu Kögunar fram að skiptingu félagsins sem átti sér stað 1. september 2006 er færður sem aflögð starfsemi og er afkoma og efnhagur þeirra sérgreindur sem slíkur í reikningi félagsins. Þau félög sem falla undir aflagða starfsemi eru HugurAx hf., Landsteinar Strengur hf., Opin Kerfi Group Holding ehf., Hands ASA í Noregi og SCS Inc. í Bandaríkjunum, að því er segir í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands.

Í uppgjörinu kemur meðal annars fram að gengistap upp á 344 milljónir króna varð vegna vaxtaskiptasamnings sem gerður var árið 2005. Hagnaður nýrrar samstæðu fyrir skatta nam níu milljónum króna en tap af aflagðri starfsemi nam 944 milljónum króna á síðasta ári.

Ársuppgjör Kögunar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×