Innlent

Bóndi á Jökuldal segir matið hreinan dónaskap

Vilhjálmur Snædal, bóndi á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, segir að niðurstaða matsnefndarinnar á vatnsréttindum í tengslum við Kárahnjúkavirkjun sé hreinn dónaskapur í garð landeigenda. „Það er eins og þeir hafi tekið Blöndusamninginn og framreiknað hann," segir Vilhjálmur. Þórður Bogason, lögmaður Landsvirkjunnar, segir að þarna sé um hærri upphæðir að ræða fyrir vatnsréttindi en áður hafa þekkst.

Sem kunnugt er af fyrri frétt Vísi mat nefndin vatnsréttindin 1,6 milljarða kr. þannig að fyrir Jökulsá á Dal kæmu 1,2 milljarðar króna, fyrir Fljótsdal kæmu um 300 milljónir króna og fyrir Kelduá kæmu um 110 milljónir króna.

Vilhjálmur Snædal segir að upphæðir þessar séu langt undir því sem landeigendur hafðu farið framá en „kannski það sem við áttum von á." Hann bætir því við að sérálit Egils B. Hreinssonar upp á 10 milljarða króna hefði verið meira í áttina að kröfum landeigenda.

Þórður Bogason, lögmaður Landsvirkjunar, segir að þótt upphæðin, 1,6 milljarðar króna, sé töluvert yfir því sem Landsvirkjun hafi talið rétt muni þeir skoða þessa niðurstöðu alvarlega.

Aðspurður um séráalit Egils B. Hreinsonar bendir Þórður á að hinir fjórir nefndarmennirnir, þar með báðir lögfræðingar nefndarinnar, hafi verið sammála um niðurstöðu upp á 1,6 milljarð króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×