„Þrjú hafa misst vinnuna, einhver þurft að segja upp í vinnu, nokkur þurft á læknisaðstoð að halda, mörg hafa klárað allt sumarorlof næsta árs og flestir sjá fram á töluvert lægri útborgun mánaðarmótin fyrir jól.“
Svona hefst grein sem Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir birti á Vísi fyrr í dag undir yfirskriftinni Gleymdu leikskólabörnin. Tilefnið er að nú er fimmta vika ótímabundins verkfalls í fjórum leikskólum á landsvísu gengin í garð.
Hún segist vita fyrir víst að þrír foreldrar hafi misst vinnuna, en þeir séu sennilega fleiri.
„Já þetta eru nokkrir aðilar, ég er ekki með nákvæma tölu en þetta er nokkuð stór hópur af fólki,“ segir hún.
Börnum mismunað gróflega
Jóhanna segir að greinin sé skrifuð í þeirri veiku von að þeir sem beri ábyrgð sjái sóma sinn í því að breyta aðgerðunum tafarlaust. Börnin séu notuð sem peð í kjaradeilu sem sé í besta falli siðlaus.
„Hér er börnunum okkar mismunað gróflega og fáir virðast ætla að kippa sér upp við það.“
Hún segir það augljóst að aðgerðirnar setji enga pressu á samningsaðila. Nú séu fjórar vikur liðnar af verkfalli og samningsaðilar séu rétt að byrja ræða saman.
Jóhanna segir að nú sé verið að skoða hvað hægt sé að gera varðandi rétt barnanna, en hún vísar í að umboðsmaður barna hafi sagt að verkföllin mismuni börnum.
„Það er verið að skoða hvað er hægt að gera, en í rauninni er það ennþá óljóst því miður,“ segir hún.