Fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði Fjölbrautaskólans í Breiðholti var tekin í dag. Byggingin verður tæplega 2700 fermetrar og er ætluð fyrir verknám í húsasmíði, rafvirkjun og listgreinar.
Mennta- og barnamálaráðherra, borgarstjóri og fleiri tóku fyrstu skóflustunguna að byggingunni. Þá tók ráðherra fyrstu stóru skóflustungurnar á gröfu. Framsóknarflokkurinn hefur verið iðinn við að hefja nýjar framkvæmdir síðustu vikur. Ráðherrann tók líka fyrstu skóflustunguna að nýjum þjóðarleikvangi í október og notaði líka traktor. Þá er stutt síðan formaður flokksins tók slíkt verkefni að sér þegar ákveðið var að byggja nýja Ölfursárbrú.
Bylting fyrir Breiðholtið
Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið eftir tvö ár. Lengi hefur verið beðið eftir þessari viðbót, enda ríkti mikil ánægja í skólanum í dag með byrjun framkvæmda.

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari Fjölbrautarskólans í Breiðholti segir að rætt hafi verið um nauðsyn þess að byggja við skólann síðan árið 2015.
„Þetta er langþráð. Búið að vera langt ferli og mikið fagnaðarefni fyrir skólann, fyrir Breiðholtið og íslenskt menntakerfi. Við erum með yfir 400 nemendur sem eru að læra rafvirkjun hjá okkur og hátt í 400 sem eru að læra húsasmíði Þá erum við með mjög sterka listnámsbraut. Allt þetta verður undir í þessu nýju byggingu. Þetta verður bylting fyrir okkur,“ segir Guðrún.