Menning

Frá Vibskov til Willhelm

Sara María Skúladóttir er nýsnúin heim eftir mánaðarvinnu fyrir Henrik Vibskov. Í lok ágúst heldur hún til Parísar til að vinna fyrir Bernhard Willhelm. fréttablaðið/pjetur
Sara María Skúladóttir er nýsnúin heim eftir mánaðarvinnu fyrir Henrik Vibskov. Í lok ágúst heldur hún til Parísar til að vinna fyrir Bernhard Willhelm. fréttablaðið/pjetur

Sara María Skúladóttir er nýsnúin frá Danmörku, þar sem hún vann í stúdíói fatahönnuðarins þekkta, Henrik Vibskov í einn mánuð. Í lok ágústmánaðar heldur hún svo til Parísar, þar sem hún hefur fengið vinnu hjá öðrum þekktum hönnuði, Bernhard Willhelm.



Sara María er í klæðskeranámi við Iðnskólann í Reykjavík, sem hún mun ljúka næsta vor. Saumakunnáttan nýttist henni vel í vistinni hjá Henrik Vibskov. „Þegar ég var þarna var verið að gera dömulínuna fyrir næsta sumar. Þau eru tvö, Henrik sem sér um karlafötin, og Maja sem gerir dömulínuna. Ég var að vinna svolítið mikið með henni við að klára línuna og koma henni úr húsi," útskýrði Sara.

Starfið fólst bæði í því að sníða og sauma svokallaðar prótótýpur. „Prótótýpurnar þurfa að vera vel gerðar. Þær eru sendar á sölusýningar, eða showroom, þar sem línurnar eru sýndar. Þangað kemur fólk úr verslununum til að skoða og panta," sagði Sara, sem kvaðst ánægð með að hafa komið inn á þessum tíma. „Það er gaman að sjá hlutina verða til og vita að þeir fara svo í framleiðslu," sagði hún.

Sara er útskrifuð úr textílhönnun frá Listaháskóla Íslands. „Það var þess vegna líka skemmtilegt að sjá hvað Henrik lætur prenta fyrir sig. Þar er stelpa bara í því að prenta mynstur fyrir hann. Sumar flíkurnar úr línunni hans eru úr efnum sem fást hvergi annars staðar," útskýrði hún.

Í lok ágúst heldur Sara til Parísar, þar sem hún hefur fengið vinnu hjá Bernhard Willhelm, sem hefur vakið mikla athygli fyrir hönnun sína. „Það er líka rosalega spennandi. Ég sótti um hjá þeim tveimur og fékk bæði - ég var ótrúlega heppin, finnst mér," sagði Sara. Í báðum tilfellum hafði hún samband við hönnuðina vegna eigin hrifningar á verkum þeirra. „Ég hitti Bernhard líka þegar hann kom til landsins á vegum góðrar vinkonu minnar. Hann hefur verið að hanna búninga fyrir tónleikaferðalagið sem Björk er á núna," sagði Sara. Hún segir það þó allt annað en sjálfgefið að fá inni hjá hönnuðum á borð við Vibskov og Willhelm. „Maður þarf alveg að hafa fyrir þessu," sagði hún sposk.

Þegar vistinni hjá Willhelm lýkur á Sara bara eina önn eftir af náminu. „Þá velur maður hvort maður fer í kjólasaum eða klæðskerann, dömu- eða herrafatnað, sem sagt. Ég er ekki búin að ákveða í hvoru ég ætla að útskrifast, ég ætla bara að láta það ráðast dálítið af því hvernig þetta starfsnám þróast," sagði hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×