Erlent

Viðræður um kjarnorkuáætlun liggja niðri

Viðræður sexveldanna svonefndu um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumanna liggja niðri annan daginn í röð. Þeir vilja ekki snúa aftur að samningaborðinu fyrr en þeir hafa fengið aðgang að bankareikningum í Makaó sem voru frystir á sínum tíma.

Um er að ræða rúma 1.600 milljarða íslenskra króna sem Bandaríkjastjórn grunaði að hefði verið aflað með ólögmætum hætti. Rannsókn virðist hafa leitt í ljós að svo hafi ekki verið og því hafa peningarnir verið fluttir frá Makaó í kínverskan banka.

Erindrekar Norður-Kóreumanna hafa hins vegar ekki vilja halda viðræðunum áfram fyrr en fjármunirnir eru komnir í þeirra hendur.

Vonir höfðu verið bundnar við að með viðræðum sexveldanna í Peking í Kína tækist að útfæra nýgert samkomulag um að Norður-Kóreumenn slökktu á kjarnaofni sínum í Yongbyon og legðu þar með á hilluna öll áform um frekari kjarnorkuvæðingu en þær vonir virðast nú í uppnámi.

Reynt verður að koma peningunum í hendur ráðamanna í Pjongjang á næstu dögum en þótt það takist eru ýmis önnur ljón í veginum.

Norðurkóreska ríkissfréttastofan sakaði í morgun japanska ráðamenn um að reyna að spilla fyrir viðræðunum með því að vilja að tengja þær örlögum japanskra borgara sem Norður-Kóreumenn eru sagðir hafa rænt á áttunda og níunda áratugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×