Innlent

Samfylkingin vill fella niður innflutningsvernd á landbúnaðarvörur

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem vill ganga skrefi lengra til að lækka matarverð hér á landi með því að fella niður innflutningsvernd á landbúnaðarvörur. Allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkur, eru hins vegar á móti sölu léttvíns í matvöruverslunum. Skiptar skoðanir eru um málið innan Samfylkingar.

Þetta kom fram á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu í dag. Á fundinum sátu formenn allra stjórnmálaflokkanna fyrir svörum, við spurningum sem samtökin telja sín hagsmunamál. Samfylkingin er eini flokkurinn sem svaraði játandi þeirri spurningu hvort næsta skref til lækkunar matvælaverðs yrði niðurfelling innflutningsverndar á landbúnaðarvörur. Formenn hinna flokkanna svöruðu því neitandi og sögðu það ekki tímabært.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingar, segir skattalækkanir ríkisstjórnarinnar í byrjun mars ekki duga til. „Við þurfum að lækka innflutningstollana til þess að við getum borið okkur saman við hin Norðurlöndin," segir Ingibjörg.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að þeir myndu ekki fella niður innflutningsvernd nema í samræmi við alþjóðlega samninga. „Við teljum að það sé ekki hægt að gera það í bráð. Hins vegar er það alveg ljóst að innflutningsvernd verður minni í framtíðinni. Þetta er spurning um það með hvaða hætti og hvers konar aðlögun landbúnaðurinn fær," segir Geir.

Þá er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn sem vill leyfa sölu léttvíns og öls í matvöruverslunum. Skiptar skoðanir voru hjá Samfylkingu en formenn hinna flokkanna sögðu þvert nei.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×