Erlent

Drengjum bjargað úr klóm mannræningja

Bandarískur unglingsdrengur, sem saknað hefur verið síðan 2002, fannst í gær heill á húfi á heimili rúmlega fertugs manns sem nú hefur verið ákærður fyrir mannrán. Annar drengur fannst þar einnig en hann hvarf fyrir tæpri viku.

Shawn Hornbeck var aðeins 11 ára þegar hann lagði af stað frá heimili sínu í Washington-sýslu nærri St. Louis í október 2002. Hann ætlaði í hjólreiðatúr og von var á honum heim í kvöldmat en ekkert spurðist til hans. Ættingjar og vinir leituðu hans vikum saman. Vefsíða var opnuð þar sem óskað var upplýsinga um ferðir hans. Ýmsar vísbendingar bárust en ekkert sem hjálpaði til við leitina.

Það var svo á mánudaginn fyrir tæpri viku að hinn 13 ára gamli William Ownby hvarf. Ekkert var vitað um ferðir hans eftir að hann steig út úr skólabíl nærri heimili sínu í Beufort. Vitni sögðust hafa séð hvítan pallbíl á hraðferð nærri þeim stað á sama tíma.

Hvorki virtist ganga né reka í rannsókninni þar til lögregla kom að íbúðarhúsnæði í Kirkwood á fimmtudagskvöld í öðrum erindagjörðum. Ráku lögreglumenn augu í pallbíl sem passaði við lýsingar vitna og fundu eigandann, hinn fjörutíu og eins árs gamla Michael Devlin. Heimild fékkst til að leita á heimili hans og það var þar sem drengirnir fundust. Að sögn lögreglu virtust þeir við góða heilsu.

Garu Toelke, lögreglustjóri, segir það hafa komið þægilega á óvart að drengirnir væru enn á lífi, sér í lagi Shawn Hornbeck sem hafði veriið týndur í fjögur og hálft ár. Fæsta sem hefði verið saknað svo lengi væri von til að finna á lífi.

Devlin hefur verið ákærður fyrir mannrán og málið er í rannsókn. Telur saksóknari afar líklegt að fleiri ákærur verði lagðar fram á hendur manninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×