Innlent

Fyrsta BMW kraftmílan háð á morgun

Farið verður í fyrstu BMW kraftmíluna á kvartmílubrautinni í Kaplahrauni, laugardaginn 14 júlí næstkomandi. Slík kraftmíla hefur ekki verið háð hér á landi áður, og þarna er markmiðið að mynda öruggan og löglegan vettvang fyrir unga ökuþóra.

Skipuleggjendur keppninnar eru BMWKraftur, félag áhugafólks um BMW og B&L, umboðsaðili BMW á Íslandi og hafa um 30 BMW bílar verið skráðir til þátttöku. Þar á meðal eru margir af þeim aflmestu hér á landi eins og BMW M5 (E60) sem er 507 hö. Af öðrum keppnisbílum má nefna BMW M5 (E39), sportbílinn Z3 M Roadster og Alpina B3, sem er Alpina breyttur þristur.

Þó að fyrirkomulag keppninnar byggi á hefðbundinni kvartmílu, verður ekki um eiginlega keppni að ræða. Fyrst og fremst er verið að gefa félagsmönnum í BMWKrafti kost á að sýna hvað í bílum þeirra býr á öruggan og löglegan hátt. Jafnframt er kraftmílan hugsuð sem jákvæð hvatning til eigenda hraðskreiðra bíla, að þeir takmarki hraðakstur við þar til gerðar brautir. BMW kraftmílan hefst stundvíslega kl. 11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×