Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem hann tekur fram að fullyrðingar um að embættið hafi lekið upplýsingum um rannsókn á Baugsmálinu séu rangar.
Í yfirlýsingu frá Hreini Loftssyni stjórnarformanns Baugs Group kemur fram að embættið hafi lekið upplýsingum til fjölmiðla til að hafa áhrif á aðalmeðferð í eftirstöðvum Baugsmálsins sem hefst í næstu viku.
Ríkislögreglustjóri vill taka fram að embættið hefur hafnað beiðni fréttamanna um að fá afrit af bréfaskriftum milli embætta Ríkislögreglustjóra og Skattransóknarstjóra ríkisins. Líklegt sé að annar tveggja manna sem tilheyrðu þeim hópi 9 einstaklinga sem nefndir hafa verið í umræðunni og höfðu fengið umrædd gögn afhent, samkvæmt stjórnsýslulögum, hafi afhent fréttamönnum gögnin, eða þeir komist yfir þau með öðrum hætti.
Tekið er fram að Ríkislögreglustjóri geti ekki tekið ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um einstök mál né stjórnað umfjöllun þeira um gögn sem þeir hafa undir höndum.
Þá segir: "Ríkislögreglustjórinn hefur engan haga af, né vilja til, að koma höggi á nokkurn starfsmann Baugs Group hvorki fyrrverandi né núverandi." Enginn slíkur hafi verið nafngreindur í fréttatilkynningu embættisins í gær en upplýsingar um nögn einstaklinga hafa fréttamenn tekið upp úr framangreindum gögnum.
Fullyrðingar um að embættið hafi lekið upplýsingum um rannsókn á umræddu máli hafa verið rannsakaðar og niðurstaða að enginn fótur væri fyrir slíkum áburði.