Innlent

72 fjölskyldur borga bíl útvarpsstjóra

72 fjölskyldur sjá til þess að útvarpsstjórinn komist á milli staða.
72 fjölskyldur sjá til þess að útvarpsstjórinn komist á milli staða. Samsett mynd
Afnotagjöld 72 fjölskyldna í hverjum mánuði duga rétt til að borga af mánaðarlegri rekstrarleigu RÚV á glæsibifreið þeirri sem stofnunin greiðir undir Pál Magnússon útvarpsstjóra. Þetta jafngildir því að afnotagjöld allra íbúða á Reynimel 72 til 84 renni í bílasjóð Páls. Einn íbúi á Reynimel 74 segir kostnað við bíl Páls algjörlega út í hött.

Hver fjölskylda greiðir mánaðarlega um 2700 krónur í afnotagjöld til RÚV. Stofnunin greiðir hins vegar 202 þúsund krónur í rekstrarleigu í hverjum mánuði fyrir Audi Q7 glæsibifreið fyrir Pál Magnússon. Sá bíll kostar rúmlega níu milljónir og er á tveggja ára rekstrarleigu.

Tvær blokkir, sex stigagangar eða 72 fjölskyldur sjá afnotagjöld sín hverfa ofan í bílahít Páls Magnússonar í hverjum mánuði. Hallgrímur Hreiðarsson flugvirki sem býr á Reynimel 74 segir í samtali við Vísi að þessi kostnaður við bíl Páls sé algjörlega út í hött. "Þetta er mjög slæmt en mann grunaði svo sem að um leið og RÚV yrði breytt í hlutafélag þá myndu hans kjör skána verulega," segir Hallgrímur.

Aðspurður um hvað gera mætti við peninga í staðinn sagði Hallgrímur að nær hefði verið að ráða Randver Þorláksson aftur í Spaugstofuna.

Vísir hefur áður greint frá því að enginn ráðherra nema Geir H. Haarde forsætisráðherra er á dýrari bíl en Páll. Þá hefur það jafnframt komið fram að Páll ekur um á flottari bíl en kollegar hans í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×